Innlent

Ábendingar til Samkeppniseftirlitsins fimmfaldast milli ára

Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samekppniseftirlitsins.
Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samekppniseftirlitsins. MYND/Páll Bergmann

Fjöldi þeirra ábendinga sem Samkeppniseftirlitinu bárust frá almenningi og fyrirtækjum fimmfaldaðist á milli áranna 2006 og 2007. Þetta kemur fram í ársskýrslu eftirlitsins sem kynnt var í dag. Alls bárust 150 ábendingar í fyrra, flestar um nýja gátt á heimasíðu stofnunarinnar, en ábendingarnar voru 30 árið 2006.

Í skýrslunni segir einnig að langflestar ábendingar hafi varðað neyslu- og rekstrarvörur, einkum matvörumarkað, fjarskipti og fjölmiðlun, samgöngur ogferðamál.

Þá kemur fram í skýrslunni að málum í meðferð í fyrra hafi fjölgað miðað við fyrri ár, en þau reyndust 136. Á árinu lauk 117 málum, þar af lauk um 70 málum með ákvörðun á heimasíðu. Hér eru einungis talin stjórnsýslumál sem lúta með einum eða öðrum hætti að atvikum í atvinnulífinu. Þá framkvæmdi Samkeppniseftirlitið framkvæmdi óvenjumargar húsleitir á árinu. Þannig var ráðist í sex húsleitaraðgerðir hjá um 15 fyrirtækjum vegna fimm stjórnsýsluathugana.

Enn fremur hefur skilvirkni stofnunarinnar aukist á undanförnum árum. Segir í skýrslunni að þrátt fyrir að málum hafi fjölgað og umfang aukist hafi tekist að stytta meðallengd málsmeðferðar talsvert. Miðgildi málsmeðferðartíma sýnir enn fremur að helmingi mála lauk á innan við þremur mánuðum eftir að mál hófst.

Aldurssamsetning mála hefur einnig breyst mikið til batnaðar. Þannig eru 70 prósent mála sem til meðferðar voru í byrjun árs 2007 yngri en eins árs, samanborið við 52 prósent árinu áður. Um 11 prósent mála voru nú eldri en tveggja ára, samanborið við 27 prósent árinu áður.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×