Innlent

Vaktarabærinn endurgerður í upprunalegri mynd

Garðastræti 23
Garðastræti 23

Borgarráð samþykkti á fundi sínum í morgun afsal á fasteigninni Garðastræti 23 til Minjaverndar hf. og er gert ráð fyrir að kaupverð hússins verði innt af hendi með endurgerð þess í upprunalegri mynd í miðborg Reykjavíkur.

Í tilkynningu frá Reykjavíkurborg segir að ,,húsið sem stendur á lóðinni, Vaktarabærinn,  var að öllum líkindum fyrsta timburhúsið sem byggt var í Grjótaþorpi, fyrir utan hús Innréttinganna við Aðalstræti, og er vegna aldurs sjálfkrafa friðað samkvæmt lögum um húsafriðun. Húsið er talið vera frá áriinu 1844-1848 er þess fyrst getið sem skemmu úr timbri við bæinn Grjóta sem Grjótaþorpið er kennt við en holtið þótti grýtt og var grjót úr því m.a. notað við byggingu Dómkirkjunnar. Byggt hefur verið við húsið 1860 og aftur 1880 og er það þá komið í núverandi stærð. Nafn sitt dregur húsið af því að Guðmundur vaktari Gissurarson, sem bjó í Grjóta, byggði skemmuna en síðan eignaðist það Stefán Egilsson, faðir Sigvalda Kaldalóns og Eggerts Stefánssonar. Sigvaldi fæddist í húsinu og bjó þar fyrstu átta ár ævi sinnar. Húsið er um 150 ára gamalt og er einstakt í menningarsögulegu tilliti."

Gert er ráð fyrir að Minjavernd hf. taki við húsinu í núverandi ásigkomulagi og standi fyrir, beri ábyrgð á og fjármagni endurbyggingu þess að öllu leyti. Á lóð Garðastrætis 23 eru leifar gamla torfbæjarins í Grjótaþorpi og er Minjavernd hf. kunnugt um það. Framkvæmdum verður hagað í samræmi við þjóminjalög og mun Minjavernd bera þann kostnað sem hlýst af fornleifakönnun. Komi til þess að fram þurfi að fara fornleifarannsókn mun Reykjavíkurborg bera af henni allan kostnað.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×