Innlent

Vill sjá ákvörðun um Bakka sem fyrst

Iðnaðarráðherra vonast til þess að yfirlýsing um rannsóknir á hagkvæmni þess að reisa álver á Bakka við Húsavík flýti fyrir framkvæmdum.

Ráðuneytið, Alcoa og Norðurþing skrifuðu undir yfirlýsinguna í morgun. Um hana segir Össur: „Það á að gera það kleift fyrir Alcoa að taka að lokum ákvörðun um það hvort fyrirtækið vilji ráðast í stóriðju á Bakka. Það er meginefni þessarar yfirlýsingar sem við skrifuðum undir í morgun. Nú hefur fyrirtækið 15 mánuði til þess.

Ég tel reyndar að það sé hægt að gera þetta á skemmri tíma og tel að það væri æskilegra að það yrði gert sem fyrst og vildi gjarnan sjá ákvörðun til þess að eyða óvissunni gagnvart íbúum innan árs," segir Össur.

Össur segist ekki geta sagt til um það hvenær framkvæmdir hefjist en telur líklegt að undirritunin færi verkið nær framkvæmdastigi. „En ég undirstrika það að það er ekki búið að taka ákvörðun um það að hálfu Alcoa að ráðast í framkvæmdina.

Hins vegar er ljóst að þarna er mikil orka sem hægt er að draga úr jörðu og það liggur alveg fyrir að það er mikil eftirspurn eftir orku og það eru margir sem í hana vilja komast og þess vegna tel ég að það sé nauðsynlegt að ákvörðun liggi fyrir sem fyrst," segir iðnaðarráðherra enn fremur.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×