Innlent

Stjórnsýsluúttekt á OR á lokastigi

MYND/Róbert

Borgarráð samþykkti á fundi sínum í dag að stjórnsýsluúttekt innri endurskoðunar á Orkuveitu Reykjavíkur yrði fyrst kynnt í stjórn Orkuveitunnar og fulltrúum eigenda áður en hún yrði tekin fyrir í borgarráði.

Fram kemur í minnisblaði innri endurskoðanda borgarinnar, sem lagt var fram á borgarráðsfundi, í morgun að innri endurskoðun vinni nú að lokafasa stjórnsýsluúttektarinnar sem borgarráð óskaði eftir á fundi sínum 1. nóvember á síðasta ári. Var ákveðið að ráðast í hana í kjölfar deilna um samruna Geysis Green Energy og Reykjavík Energy Invest, sem fallið var frá, en það mál leiddi meðal annars til þess að meirihluti sjálfstæðismanna og framsóknarmanna í borginni sprakk.

Ólafur F. Magnússon borgarstjóri bókaði á eigendafundi Orkuveitunnar 15. febrúar síðastliðinn að niðurstaðan stjórnsýsluúttektarinnar yrði kynnt öllum eigendum Orkuveitunnar samtímis, en auk Reykjavíkurborgar eiga Akraneskaupstaður og Borgarbyggð hlut í Orkuveitunni. Borgarráð þurfti að samþykkja tillögu um að skýrslan yrði fyrst kynnt á eigendafundi og stjórnarfundi Orkuveitunnar og var það gert.

Hallur Símonarson, yfirmaður innri endurskoðunar hjá borginni, segir skýrsluna vera í yfirlestri en veit ekki hvenær hún verði kynnt. Það geti tekið nokkurn tíma að fara yfir málið og svo spili inn í sumarleyfi og annað.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×