Erlent

Vill skilgreina afleiðingar alnæmis sem hamfarir

Alþjóða Rauði krossinn telur að skilgreina beri afleiðingar alnæmis víða í Afríku og Asíu sem hamfarir og því beri að bregðast við alnæmisfaraldrinum eins og náttúruhamförum.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Rauða krossins um hamfarir í heiminum. í tilkynningu frá Rauða krossi Íslands kemur fram að fjallað sé sérstaklega um alnæmisfaraldurinn og afleiðingar hans í skýrslu Alþjóða Rauða krossinsins. Bent er á að víða í Afríku og Asíu sé faraldurinn samfélagsvandamál sem enginn fari varhluta af.

„Sameinuðu þjóðirnar skilgreina hamfarir sem "ástand sem veldur alvarlegum truflunum í stoðum samfélags, sem veldur mannskaða og tjóni á umhverfi og eignum, og skapar aðstæður sem samfélagið ræður ekki við af eigin rammleik." Í skýrslu Rauða krossins eru færð rök fyrir því að þessi skilgreining eigi í öllu við um afleiðingar alnæmis í löndum þar sem tíðni smits er hvað hæst og því beri að bregðast við alnæmisfaraldrinum líkt og við náttúruhamförum," segir í tilkynningunni.

Þar kemur einnig fram að samkvæmt upplýsingum Alnæmisstofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNAIDS) smitist um sjö þúsund manns daglega af HIV-veirunni sem valdi alnæmi. Rúmlega 25 milljónir manna hafa látist af völdum alnæmis síðan 1981, og 33 milljónir manna eru smitaðir í heiminum.

„Rauði kross Íslands hefur unnið í um áratug að alnæmisverkefnum í sunnanverðri Afríku þar sem vandinn er allra mestur. Fyrir systurfélög okkar sem við vinnum með á þessu svæði er alnæmi ekki einungis heilbrigðisvandamál heldur hamfarir sem valda dauðaog fátækt sem eykur á neyð íbúanna," er haft eftir Kristjáni Sturlusyni, framkvæmdastjóra Rauða kross Íslands, í tilkynningunni. „Heimsbyggðin öll verður að taka höndum saman og styðja fórnarlömb alnæmis líkt og gert er þegar um náttúruhamfarir er að ræða."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×