Innlent

Innanlandsflug stöðvast í fjóra tíma á morgun

Innanlandsflug leggst af í fjórar klukkustundir í fyrramálið og millilandaflug gæti farið verulega úr skorðum vegna aðgerða flugumferðarstjóra.

Röð aðgerða flugumferðarstjóra hefst klukkan sjö í fyrramálið og verður aðeins tveimur flugvélum á klukkustund hleypt í loftið frá þeim tíma til klukkan ellefu. Það er því ljóst að röskun verður á millilandaflugi sem getur orðið til þess að fólk missi af tengiflugi frá öðrum flugvöllum.

Áhrifin verða hins vegar meira afgerandi varðandi innanlandsflugið því flugumferðarstjórar munu ekkert sinna því á tímabilinu frá klukkan 7 til 11. Samningaviðræður standa nú yfir í húsakynnum ríkissáttasemjara, en engar viðræður hafa átt sér stað í deilunni undanfarnar tvær vikur.

Aðgerðirnar munu fyrst um sinn ekki hafa áhrif á stjórnun alþjóðaflugsins um íslenska flugstjórnarsvæðið, þ.e.a.s. flug erlendra flugfélaga um svæðið mun ekki raskast. Flugumferðarstjórar hafa aftur á móti boðað að aðgerðirnar muni einnig ná til þessa flugs þegar kemur fram í næstu viku en ætla að láta Flugstoðir vita um þetta fyrir klukkan tvö á morgun.

Samkvæmt heimildum fréttastofu Stöðvar 2 fara flugumferðarstjórar fram á launahækkanir sem eru umtalsvert meiri en þær sem nýlega hefur verið samið um á almennum vinnumarkaði en þeir segjast vilja minnka hjá sér yfirvinnu og vísa til skýrslu nefndar frá árinu 1997 þar að lútandi.

Meðallaun flugumferðarstjóra með vaktaálagi og yfirvinnu eru nú sögð vera um 800 þúsund krónur á mánuði og byrjendalaun með yfirvinnu og öðrum þáttum um 400 þúsund krónur á mánuði.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×