Erlent

Segir Barbie-dúkkur eyðileggja íranska menningu

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Írani skoðar vestræn leikföng í verslun.
Írani skoðar vestræn leikföng í verslun. MYND/AP

Barbie-dúkkur og önnur vestræn leikföng munu hafa eyðileggingaráhrif á þjóðfélag og menningu Írans, að sögn Ghorbans Ali Dori Najafabadi, yfirsaksóknara landsins. Þetta ritaði hann í bréf til Parviz Davoudi varaforseta sem birt var í dagblaðinu Mardom Salari í gær.

Þar stóð enn fremur að ýmsar nafngreindar vestrænar söguhetjur, s.s. Leðurblökumaðurinn, Köngulóarmaðurinn og Harry Potter, ásamt vestrænum tölvuleikjum ættu að vera menningarlegum leiðtogum landsins til viðvörunar. Íran væri þriðja stærsta innflutningsland leikfanga í heiminum og áðurnefnd vestræn öfl gætu verið mikil ógn við persónuleika og einkenni þeirrar kynslóðar sem nú væri að alast upp.

Najafabadi, sem auk saksóknaraembættisins skipar áhrifastöðu innan íslamska klerkaveldisins, vakti athygli á því í bréfi sínu að til hliðar við löglegan leikfangainnflutning væri miklu magni leikfanga smyglað til landsins og þeir sem að því stæðu létu menningarleg gildi víkja fyrir gróðavon.

Vaxandi þykkju gætir nú í samskiptum Írans og Bandaríkjanna vegna kjarnorkuáætlunar Írana sem þeir fullyrða að sé eingöngu til friðsamlegrar raforkuframleiðslu. Á sama tíma þykir íslömskum áhrifamönnum vesturvæðing þjóðarinnar keyra úr hófi fram og benda oft og tíðum opinberlega á þær menningarlegu hættur sem þeir telja fylgja slíkri þróun.

Reuters greindi frá.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×