Innlent

Milljónatjón vegna vatnsleka í íþróttahúsi Þróttar

Slökkviliðsmenn rjúfa gólfið í íþróttasalnum.
Slökkviliðsmenn rjúfa gólfið í íþróttasalnum. MYND/Reykjavíkurborg

Milljónatjón varð þegar kaldavatnsleiðsla gaf sig í inntaksklefa í íþróttahúsi Þróttar og vatn flæddi inn í 900 fermetra íþróttasal á neðstu hæð. Vart varð við tjónið snemma í morgun og strax var kallað eftir aðstoð eftir því sem segir í tilkynningu frá framkvæmda- og eignasviði borgarinnar.

Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins vann í morgun ásamt starfsmönnum íþróttahúsins og framkvæmda- og eignasviðs að því að dæla vatni í burtu og forða munum frá skemmdum. Salurinn, sem heitir Skellur, er sagður ónothæfur.

Rjúfa þurfti gólf íþróttasalarins til að dæla vatni í burtu en það lá undir öllu gólfinu. Að sögn Magnúsar Haraldssonar, deildarstjóra fasteigna hjá framkvæmda- og eignasviði, er ljóst að tjón hleypur á milljónum króna. „Salurinn er ónothæfur. Í dag erum við að meta tjónið og átta okkur á orsökum þess að lögnin gaf sig," segir Magnús á vef borgarinnar. Í samráði við rekstraraðila hússins verður metið hve fljótt verður hægt að koma salnum aftur í notkun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×