Innlent

Tilkynnt um ellefu líkamsárásir á Akureyri um helgina

Tilkynnt hefur verið um ellefu líkamsárásir á Bíladögum Akureyri um helgina auk fjölda skemmdarverka og þjófnaða. Óvíst hvort að hátíðin Ein með öllu verði haldin á Akureyri um verslunarmannahelgina.

Mikil ölvun og læti brutust út aðfararnótt sunnudagsins á Akureyri þar sem Bíladagar vour haldnir um helgina. Fangageymslu fylltust af fólki og mikill aðsúgur var gerður að lögreglumönnum, sem hafa sjaldan kynnst öðru eins og voru lætin mun meiri en á nokkrurri verslunarmannahelgi hingað til.

Alls hefur verið tilkynnt um ellefu líkamsárásir um helgina og liggja kærur fyrir í tveimur tilvikum. Einnig hefur verið tilkynnt um fjölmörg skemmdarverk og þjófnaði. Þannig voru rúður brotnar, umferðarmerki og auglýsingaskilti rifin niður og skemmd, garðhúsgögnum rænt og þau brotin og símum og reiðhjólum stolið svo eitthvða sé nefnt.

Tuttugu ára aldurstakmark var á tjaldsvæðum bæjarins um helgina en það er í annað sinn sem aldurstakmark er sett á á tjaldsvæðunum. Um verslunarmannahelgina í fyrra var tuttugu og þriggja ára aldurstakmark á tjaldsvæðunum.

Hagsmunasamtökin Vinir Akureyrar hafa síðustu árin staðið fyrir hátíðinni Ein með öllu sem haldin hefur verið á Akureyri um verslunarmannahelgina. Samtökin vilja koma áfram að skipulagningu hátíðarinnar en eru ósátt við aldurtakmörk á tjaldsvæðunum.

Guðmundur Karl Tryggvason, félagi í Vinum Akureyrar, segir Akureyrarstofu hafa verið falið að standa að hátíðinni í ár ásamt Vinum Akureyrar. Enn sé hins vegar óljóst hvort af hátíðinni verði þar sem skipulagning hafi verið í nokkru uppnámi út af tjaldsvæðamálunum en verið sé að vinna að því að leysa þau mál.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×