Enski boltinn

Riise sagður á leið til Roma

MYND/Getty Images

Breska blaðið Guardian fullyrðir að ítalska stórliðið Roma hafi komist að samkomulagi við Liverpool um kaup á norska landsliðsmanninum John Arne Riise.

Kaupverðið er allt að 600 milljónir króna en það er háð því hvernig Riise stendur sig með Rómarfélaginu og hvernig því reiðir af á næsta keppnistímabili. Riise hafði lýst yfir áhuga á að spila annars staðar en með Liverpool, þar sem hann hefur verið síðastliðin sjö ár, en hafði tekið það fram að hann vildi helst ekki spila með öðru liði á Englandi.

Annar Liverpool-leikmaður, Spánverjinn Xabi Alonso, er einnig sagður á förum til Ítalíu þar sem möguleikar hans með liðinu í Bítlaborginni eru sagðir takmarkaðir á næsta tímabili. Juventus ku hafa borið víurnar í Alonso og mun leikmaðurinn sjálfur hafa komist að munnlegu samkomulagi við stórliðið en félögin tvö eiga enn eftir að semja um kaupverðið. Reiknað er með að gengið verði frá því í þessari viku.

Með þessu fær Rafa Benítez aukin fjárráð til leikmannakaupa en hann hefur í allnokkurn tíma sóst eftir kröftum Gareths Barry, leikmanns Aston Villa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×