Innlent

Brottfluttum Súðvíkingum líður verr en heimamönnum eftir flóð

Magnús Már Guðmundsson skrifar
Frá Súðavík.
Frá Súðavík.

Brottfluttum Súðvíkingum virðist líða verr en þeim sem búa enn á staðnum eftir snjóflóðið í janúar 1995. Þeir sem fluttu á brott hafa frekar einkenni um martraðir, depurð, einangrun og sektarkennd. Þetta kemur fram í rannsókn sem Edda Björk Þórðardóttir, BA í sálfræði, gerði og hlaut fyrir helgi verðlaunastyrk Félagsstofunnar stúdenta.

,,Það sem vekur mesta athygli og hefur ekki komið fram er að brottfluttir eiga hugsanlega í meiri vanda en þeir sem dveljast áfram á heimaslóðum," segir Edda Björk og bætir við að nauðsynlegt sé að staðfesta þetta með frekari rannsóknum.

Endurtekin berskjöldun dregur úr einkennum

Hugsanleg skýring á þessu er að brottfluttir íbúar hafi orðið fyrir endurtekinni berskjöldun samkvæmt Eddu Björk. Rannsóknir benda til að endurtekin berskjöldun leiði til fækkunnar einkenna langvarandi áfallastreituröskunar. Með því að búa á staðnum þar sem áfallið átti sér stað hafa þeir síður geta forðast minningar og atburði tengda áfallinu en brottfluttir Súðvíkingar.

Athygli vekur að þrefallt fleiri brotfluttir en þeir sem enn eru búsettir í Súðavík hafa ásakað aðra eftir slysið. Ásökun hefur verið tengd alvarleika áfallastreituröskunar.

Edda Björk Þórðardóttir

Bati mestur fyrsta árið eftir áfallið

Edda Björk segir niðurstöðurnar gefa vísbendingu um að svipað hlutfall íbúa hafi einkenni áfallastreituröskunar og ári eftir áfallið. Bati er einna mestur fyrsta árið eftir áfallið og benda rannsóknir til þess að meðferð sé mikilvæg ef ná áfram bata.

Rannsókn Eddu Bjarkar er eftirfylgd á rannsókn Gylfa Ásmundssonar sálfræðings og Ágústar Oddssonar læknis frá árinu 1996.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×