Innlent

Skýrslutökur í máli 10-11 lögreglumanns hefjast í vikunni

Myndbandið af atvikinu vakti mikla athygli.
Myndbandið af atvikinu vakti mikla athygli. MYND/YouTube

Skýrslutökur hefjast í dag í rannsókn á máli lögreglumanns sem á myndbandi á vefnum YouTube sést taka ungan pilt kverkataki í verslun 10-11 í Grímsbæ.

Málið kom í lok síðasta mánaðar en á myndbandinu sést lögreglumaðurinn ráðast á piltinn eftir að hafa beðið hann um að tæma vasa sína. Lögregluyfirvöld á höfuðborgarsvæðinu ákváðu í kjölfar þess að lögreglumaðurinn skyldi ekki sinna störfum á meðan málið væri rannsakað.

Rannsóknin er í höndum ríkissaksóknara. Daði Kristjánsson, sem fer með málið þar, sagði í samtali við Vísi í morgun að skýrslutaka af vitni í málinu yrði í dag og síðar í vikunni yrði rætt við lögregluþjóninn. Auk þeirra verður rætt við piltinn sem tekinn var hálstaki og önnur vitni að atvikinu.

Rannsóknin beinist að því að upplýsa hvað gerðist og hvort lögreglumaðurinn hafi hugsanlega gerst brotlegur við lög. Daði segir að ef niðurstaða rannsóknarinnar verði sú verði málinu beint í ákærufarveg ef talið er líklegt að það leiði til sakfellingar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×