Innlent

Trjáplöntum rutt burt af Hólmsheiði

Verið er að ryðja burt mörghundruð ef ekki þúsundum trjáplantna af Hólmsheiði vegna vegagerðar Reykjavíkurborgar í því skyni að stytta vörubílum leið á losunarsvæði fyrir jarðvegsúrgang. Íbúi í Grafarholti segir afar sárt að horfa upp á slíka eyðileggingu.

Skógræktarmenn hafa lýst áformum Reykjavíkurborgar, um að ganga á græna trefilinn svokallaða, sem meiriháttar skógareyðingu en reykvísk skólabörn hafa á undanförnum tíu til fimmtán árum gróðursett þar fimm til sjö milljónir trjáplantna.

Þessa dagana má sjá forsmekkinn að því hvernig fer fyrir trjánum og öðrum gróðri þegar borgin tekur til við mannvirkjagerð á Hólmsheiði en verið er að leggja tveggja kílómetra langan veg frá Grafarholtshverfi og upp á heiðina.

Vegarlagningin kallar á miklar sprengingar í gegnum Reynisvatnsá. Samkvæmt upplýsingum frá framkvæmda- og eignasviði borgarinnar er megintilgangur vegagerðarinnar nú að koma á tengingu frá byggingarsvæðum í Úlfarsárdal að losunarstað fyrir jarðveg í Hólmsheiði til að stytta leið vörubíla. Vegurinn er jafnframt hugsaður sem framtíðartenging við ný atvinnusvæði sem borgin áformar í heiðinni og er á aðalskipulagi.

Erfitt er áætla hve mörgum trjám er rutt burt til að koma nýja veginum fyrir en þau eru að minnsta kosti mörghundruð og teljast hugsanlega í þúsundum og mörg þeirra hafa borgarbúar verið að hirða úr vegkantinum undanfarnar vikur til að planta í eigin lóðir. Íbúum nærliggjandi hverfa sárnar.

Júlíus Benediktsson, sem býr í Grafarholtshverfi, segir ákaflega sárt að sjá þessar framkvæmdir, þar sem verið er að grafa sundur kletta og ryðja burt plöntum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×