Erlent

Kínverskir ökuþrjótar brengla bílnúmerin

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
MYND/AP

Kínverskir ökuníðingar hafa nú komið höndum yfir tæknibúnað sem gerir þeim kleift að stunda brot sín án þess að upp komist, a.m.k. í flestum tilfellum. Um er að ræða tæki sem víxlar tölum á númeraplötum ökutækja á örfáum sekúndum.

Umferðarlögreglumaður í Guangdong-borg í héraðinu Yangjiang lét hafa eftir sér að rúmlega helmingur þeirra ökutækja, sem myndir nást af á hraðaeftirlitsmyndavélar, hylji skráningarplöturnar eða brengli þær með öðrum hætti. Sagði hann nánast útilokað að hafa hendur í hári slíkra þrjóta.

Ökumaður nokkur sagði það heyra sögunni til að hylja plöturnar, nú hefði tæknin tekið völdin. Maður sem hefur lifibrauð sitt af sölu talnaskiptatækisins sagði þetta þægilega lausn og ódýra en tækið mun kosta 800 juan sem jafngildir tæpum 8.000 krónum.

Lögregluyfirvöld í Kína lögðu í apríl hald á þúsundir bifreiða og skráningarplatna sem höfðu verið falsaðar til að líkjast munum í eigu kínverska hersins. Er það gert til að draga úr líkum á afskiptum löggæslu en auk umferðarlagabrota hafa slík ökutæki verið notuð við hvers kyns smygl og flutning á ólöglegum varningi.

Reuters greindi frá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×