Innlent

Augljós pólitísk ráðning á sérkjörum

Breki Logason skrifar
Dagur B. Eggertsson
Dagur B. Eggertsson

Dagur B. Eggertsson oddviti Samfylkingarinnar í borgarstjórn segir ráðningu Jakobs Frímanns Magnússonar í starf framkvæmdarstjóra miðborgar vera augljósa pólitíska ráðningu á sérkjörum. Hann segir borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins þurfa að axla ábyrgð í þessu máli þar sem borgarstjóri sitji í skjóli þeirra.

„Við höfum reynt að afla okkur upplýsinga um þetta mál á síðustu dögum með nokkrum herkjum. En þetta virðist þannig vaxið að nauðsynlegt er að fá öll gögn upp á borðið," segir Dagur B. Eggertsson.

Hann segir borgarstjóra nú þegar vera með aðstoðarmann og aðrar pólitískar ráðningar við hlið borgarstjóra eigi sér ekki fordæmi.

„Það var auglýst eftir verkefnastjórum á skrifstofu borgarstjóra fyrir skömmu en svo virðist sem þær umsóknir hafi verið lagðar til hliðar."

Aðspurður um launatölurnar sem nefndar hafa verið í þessu samhengi segir Dagur þær vera úr takti við þau kjör sem boðið hefur verið tímabundnum verkefnastjórum á vegum borgarinnar. Hann segir augljóst að um sé að ræða pólitíska ráðningu á sérkjörum.

„Við munum leggja fram fyrirspurn í borgarráði á morgun varðandi þetta mál. Það var augljóst á öllum viðbrögðum Sjálfstæðismanna í gær að þeir höfðu sáralitla og sumir enga vitneskju um þetta," segir Dagur.

„Þetta er ekki bara mál Ólafs F. Magnússonar borgarstjóra heldur einnig Sjálfstæðismanna í borgarstjórn. Þau verða að axla ábyrgð í þessu eins og öðru þar sem borgarstjóri situr auðvitað í þeirra skjóli."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×