Innlent

Sammála því að Norðurpólsísinn sé að hverfa

Þór Jakobsson veðurfræðingur er sammála mati bandaríska vísindamannsins Mark Serreze um að heimskautaísinn við Norðurpólinn sé að hverfa og að pólinn verði íslaus innan tíðar.

"Þetta eru nýstárleg fréttir en í samræmi við það sem haldið hefur verið fram alemennt," segir Þór. "Ísinn hefur verið að hopa allt frá því um síðustu aldamót og menn eiga von á því að siglingaleiðin um pólinn milli Norður-Atlantshafs og Kyrrahafs muni verða opin á sumrin innan tíðar."

Þór segir að opnun siglingaleiðarinnar muni koma Íslendingum mjög vel því þá eru möguleikar á að landið verði umskipunarhöfn með vörur frá Asíu á markaði í Evrópu og Bandaríkjunum.

Fram kemur í máli Þórs að eftir því sem íshellan bráðnar meir, hlýnar loftslagið á Norðurhveli jarðar sem svo aftur leiðir til meiri bráðnunar á ísnum. "Þetta er víxlverkun sem fer í gang við að ísinn minnkar," segir Þór.

Og hlýnandi loftslag veldur því að dýralíf á Íslandi verður fjölbreyttara, fleiri fuglategundir nemi land og eins megi gerða ráð fyrir fjölbreyttara sjávarlífi við strendur landsins.

Aðspurður um hvort hægt verði að rækta pálmatré í görðum borgarinnar á næstu árum segir Þór að töluverð bið verði í slíkt. "En það er kannski ekki langt undan að aðrar plöntur eins og til dæmis tómatar vaxi hér utandyra," segir Þór.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×