Innlent

Dómsmálaráðherra segir skiptingu Suðurnesjalögreglu standa á Samfylkingunni

Einungis stendur á þingflokki Samfylkingar að afgreiða uppskiptingu á lögregluembættinu á Suðurnesjum, segir Björn Bjarnason dómsmálaráðherra. Ríkisstjórnin sé búin að afgreiða málið fyrir sitt leiti.

Miklar vangaveltur hafa verið uppi um framtíð lögregluembættisins á Suðurnesjum en dómsmálaráðherra hefur sagt vilja stía í sundur lögreglu og tollgæslu. Við það eru lögreglu og tollgæslumenn á Suðurnesjum ósáttir og Jóhann R. Benediktssons lögreglustjóri hefur hótað uppsögn. Þá hefur hann sagt að eyða þurfi óvissunni um framtíð embættisins. Fréttastofa óskaði eftir svörum frá dómsmálaráðherra um málið. Í tölvupósti frá honum segir:

,,Með tillögu minni um stjórnsýslulega skiptingu embættisins var mótuð stefna til að leysa krónískan fjárhagsvanda embættisins í eitt skipti fyrir öll. Þess er beðið, að þingflokkur Samfylkingarinnar taki málið til afgreiðslu, en formaður hans taldi sig þurfa að afla gagna um málið, áður en hann afgreiddi það. Ríkisstjórn og þingflokkur sjálfstæðismanna hafa afgreitt málið af sinni hálfu.

Niðurstaða ríkisstjórnar um framtíðarskipan embættisins liggur fyrir og er unnið af hálfu ráðuneytisins í samræmi við hana. "

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra og formaður Samfylkingarinnar segir að skoða verði málefni embættisins betur áður en ákvörðun verði tekin. Hún vill ekki gefa upp hver hennar skoðun á málinu sé en segist hafa rætt það meðal annars við forsætisráðherra. Aðspurð hvenær þingflokkur Samfylkingar muni taki ákvörðun sagðist hún ekki geta svarað því.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×