Innlent

Guðni væri sammála Birni ef hann skildi málið

Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra.
Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra.

Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, segir í pistli á heimasíðu sinni að Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins skilji ekki út á hvað vandi lögregluembættisins á Suðurnesjum gengur. Ef Guðni gæfi sér tíma til að kynna sér málið myndi hann hins vegar án efa snúast á sveif með Birni.

Björn er að vitna til fundar sem Guðni og félagar hans héldu í Reykjanesbæ um málefni lögregluembættisins sem nokkrar deilur hafa staðið um síðustu vikur en þar eru þeir Björn og Jóhann Benediktsson lögreglustjóri ósammála um til hvaða ráða eigi að grípa. Björn vitnar í frétt í Fréttablaðinu sem sagði frá fundinum undir fyrirsögninni: „Segir deiluna persónulega", en þar er vitnað í Guðna.

„Í fréttinni er hvergi að finna rök fyrir þessari fullyrðingu, enda er hún úr lausu lofti gripinn," segir Björn. Hann bendir á að í megintexta fréttarinnar sé sagt frá ræðu Guðna þar hann hafi sagt: „Það botnar enginn í því um hvað deilan snýst."

„Af þessum orðum má ráða, að Guðni hafi ekki orðið neins vísari af þessum fundi sínum, enda var ekki efnt til hans til að leysa vanda embættisins heldur til að magna ómálefnalegar árásir á mig vegna einhvers, sem framsóknarmenn skilja ekki," segir Björn.

Að lokum segir Björn að engan þurfi að undra að illa sé fyrir flokki komið sem „sem grípur mál eins og þetta og efnir til fundar um það, án þess að sjálfur formaðurinn skilji um hvað málið snýst. Ef Guðni gæfi sér tíma til að kynna sér vanda lögreglustjóraembættisins á Suðurnesjum, kæmist hann örugglega að sömu niðurstöðu og ég, að best fari á því, að hver verkþáttur embættisins sé á forræði þess ráðuneytis, sem á honum ber ábyrgð. Um þetta snýst málið en ekki persónur."

Pistil Björns má lesa í heild sinni hér.

 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×