Innlent

Barnahús er 10 ára í dag

Bragi Guðbrandsson er forstjóri Barnaverndastofu sem átti frumkvæðið að stofnun Barnahúss.
Bragi Guðbrandsson er forstjóri Barnaverndastofu sem átti frumkvæðið að stofnun Barnahúss.
Það eru á bilinu fimm til sex prósent líkur á því að barn sem fæðist í dag þurfi að leita sér aðstoðar Barnahúss. Þetta kemur fram í nýjum tölum sem kynntar eru í dag í tilefni af því að 10 ár eru liðin frá því að Barnahús var sett á stofn.

Barnahúsi var komið á fót til að treysta hag barna sem grunur leikur á að hafi sætt kynferðisofbeldi. Að sögn Braga Guðbrandssonar, forstjóra Barnahúss, benda faraldsfræðirannsóknir sem gerðar hafa verið til þess að um 5-6% líkur séu til þess að barn sem fæðist í dag þurfi að nýta sér þjónustu Barnahúss.

Hátíðleg athöfn verður í Þjóðmenningarhúsinu milli tvö og fjögur í dag í tilefni af afmæli Barnahúss. Herra Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, flytur opnunarávarp en auk hans flytja ávarp þau Jóhanna Sigurðardóttir félags- og tryggingamálaráðherra, Carl Göran Svedin barnageðlæknir og prófessor við Háskólann í Linköping og Chris Newlin framkvæmdastjóri Landssamtaka Barnahúsa í Bandaríkjunum .

Barnahús að íslenskri fyrirmynd hefur vakið athygli víða erlendis og orðið fyrirmynd og hvati að stofnun slíkra húsa í tíu borgum í Svíþjóð og fimm í Noregi. Bragi segir að unnið sé að því að opna sjötta húsið í Noregi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×