Innlent

Tollstjórinn í Reykjavík vill frekari fækkun embætta

Dómsmálaráðherra vill stía lögreglu og tollgæslu á Suðurnesjum í sundur til að bregðast við fjárhagsvanda embættisins. Það hefur verið gagnrýnt en fleiri eru sömu skoðunar og hann.

Tollumdæmin á landinu eru átta talsins en þeim var fækkað í byrjun árs 2007 úr 27. Tollstjórinn í Reykjavík vill ganga skrefi lengra en dómsmálaráðherra og segir eðlilegast að fækka embættunum enn frekar enda sé núverandi fyrirkomulag dæmt til að hefta vöxt tollsins.

Snorri Olsen er eini tollstjórinn sem heyrir undir fjármálaráðherra en hinir sjö heyra undir dómsmálaráðherra þar sem þeir gegna líka embætti lögreglustjóra og sumir hverjir einnig sýslumannsembætti.

Snorri segir að með því að stía í sundur lögreglu og tollgæslu myndi margt ávinnast, stefnumótun og árangurstjórnun yrði skilvirkari og þá yrðu öll tollamál undir sama ráðuneytu Hann segir samvinnu lögreglu og tolls mjög góða en alltaf megi gera betur.

Dómsmálaráðherra segist opin fyrir hugmyndum Snorra um eitt tollumdæmi. Í svari hans við fyrirspurn fréttastofu þar að lútandi sagði hann að hann sæi ekkert sem mælir gegn því að taka upp sömu skipan verði um land allt eins og er í Reykjavík, hafi fjármálaráðuneyti áhuga á því.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×