Innlent

Níu af hverjum tíu vilja Íbúðalánasjóð í óbreyttri mynd

Guðmundur Bjarnason er framkvæmdastjóri Íbúðalánasjóðs.
Guðmundur Bjarnason er framkvæmdastjóri Íbúðalánasjóðs. MYND/E.Ól

Ríflega 91 prósent aðspurðra eru jákvæðir gagnvart Íbúðalánasjóði samkvæmt könnun sem Capacent Gallup gerði fyrir stofnunina. Einungis 2,2 prósent aðspurðra segjast neikvæð gagnvart sjóðnum.

Fram kemur í tilkynningu frá Íbúðalánasjóða að jákvæðni í garð sjóðsins hafi aukist jafn og þétt síðastliðin ár. Þá leiðir könnunin í ljós að ríflega 92 prósent telja að sjóðurinni eigi að starfa áfram í óbreyttri mynd. Enn fremur segja nærri 57 prósent að ríkið eigi að styrkja eignalítið og tekjulágt fólk við húsnæðiskaup.

Þá var einnig spurt hversu hátt hlutfall af kaupverði verðtryggð húsnæðislán ættu að vera að hámarki. Tæplega helmingur taldi að lánin ættu að vera 80-85 prósent af kaupverði en tæpur fjórðungur vildi miða þau við 90 prósent af kaupverði. Núverandi reglur gera ráð fyrir að lán nemi 80 prósent af kaupverði.

Þegar spurt var um hámarkslán nefndu rúm 30 prósent 21-25 milljónir króna, tæp 30 prósent 26 milljónir eða meira og svipað hlutfall 16-20 milljónir.

Tæpur helmingur sagðist mjög ósáttur við þá þróun sem orðið hefur á íslenska húsnæðislánamarkaðinum á undanförnum 12 mánuðum. Að auki sögðust 28 af hundraði frekar ósáttir við þessa þróun.

Viðhorfsrannsóknin var gerð dagana 19. júní til 14. júlí sl. Í úrtakinu voru 1266 einstaklingar sem keyptu fasteign á tímabilinu janúar til maí 2008. Svarhlutfall var 44,4 prósent.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×