Innlent

Viðskiptavinir Strætó síst óánægðari en viðskiptavinir annarra fyrirtækja og stofnana

Niðurstöður úr þjónustumati sem Strætó bs. lét framkvæma hjá farþegum sínum er heldur hærri en meðaltal allra greina í ánægjuvog Gallup. Í heildarniðurstöðunni fær Strætó bs. 73,6 stig en meðaltal síðustu ánægjuvogar Gallup var 66,5 stig. Hér skal bent á að ekki er um sambærilegar aðferðir að ræða og þarf því að hafa vissan fyrirvara á framangreindum samanburði. Það virðist þó mega draga þá ályktun að viðskiptavinir Strætó bs. séu síst óánægðari en viðskiptavinir annarra fyrirtækja og stofnana.

Niðurstöðurnar byggja á afstöðu 612 viðskiptavina Strætó bs. til frammistöðu á þjónustuframkvæmd og tóku þátttakendur afstöðu til sjö atriða. „Stundvísi" og „aðstaða á biðstöðum" komu áberandi verst út úr könnuninni og var sérstaklega kvartað yfir því þegar vagnar fara á undan áætlun. „Hitastig í vagninum" og „ferðin í heild sinni" eru hins vegar þeir þættir sem koma best út.

Ef niðurstöður eru bornar saman við niðurstöður mælinga 2005 kemur í ljós að útreiknuð gæðavísitala hefur heldur hækkað. Niðurstöðurnar í ár eru samt sem áður þær næst lægstu frá árinu 2001.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×