Innlent

Flóahreppur flokkar allan úrgang fyrstur sveitarfélaga í dreifbýli

Atli Steinn Guðmundsson skrifar

Flóahreppur hefur fyrst sveitarfélaga í dreifbýli tekið af skarið og samþykkt að allir íbúar hreppsins flokki allan úrgang frá heimilum sínum. Hreppurinn skrifaði undir samning við Íslenska gámafélagið í gær eftir fund með íbúum.

Samningurinn tekur gildi í dag og gildir í fimm ár. Hann felur í sér að allir íbúar Flóahrepps fá tvær tunnur til viðbótar þeirri tunnu sem fyrir er. Aukatunnurnar eru fyrir endurvinnanlegt sorp annars vegar og lífrænt sorp hins vegar. Endurvinnanlega sorpið flokkast í pappa, plast, málmhluti og því um líkt. Hin upprunalega sorptunna heimilisins verður höfð fyrir almennt sorp.

Markmið þessa verkefnis er að minnka magn þess sorps sem fer til urðunar um allt að 70% á fyrsta árinu og allt að 80% á næstu þremur árum. Margrét Sigurðardóttir, sveitarstjóri Flóahrepps, segir íbúana hafa tekið þessu ákaflega vel en kynningarfundur var haldinn í gærkvöldi. Í Flóahreppi búa 580 manns og eru heimilin 175.

Flóahreppur uppfyllir með samningnum skilyrði Evrópusambandsins um að draga úr urðun lífræns úrgangs. Íslenska gámafélagið mun heimsækja alla íbúa hreppsins og veita ráðgjöf um flokkunina auk þess að starfrækja símaþjónustuver sem íbúarnir geta leitað til.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×