Innlent

Ráðherra dáist að hugrekki flóttakvenna

Flóttamennirnir við komuna til landsins í síðustu vikur.
Flóttamennirnir við komuna til landsins í síðustu vikur. MYND/Anton

Jóhanna Sigurðardóttir, félags- og tryggingamálaráðherra, bauð í dag flóttakonurnar frá Al Walleed búðunum í Írak og börnin þeirra velkomin til landsins í móttöku sem bæjarstjórn Akraness hélt þeim.

Fram kemur á vef félagsmálaráðuneytisins að ráðherra hafi lýst yfir aðdáun sinni á hugrekki og viljastyrk kvennanna sem hefðu þurft að mæta ótrúlegum erfiðleikum, ofbeldi og hættum undanfarin ár, búa við skelfilegar aðstæður í flóttamannabúðunum í Al Walleed og síðan að skiljast við nána ættingja í búðunum til að flytjast til fjarlægs lands. Ráðherra óskaði konunum og börnum þeirra jafnframt gæfu og velfarnaðar í nýju landi.

„Fjölskyldurnar frá Al Walleed komu til landsins fyrir rúmri viku. Þetta eru átta konur og 21 barn. Fyrstu dagana hafa þær nýtt til að koma sér fyrir í íbúðunum sem biðu þeirra fullbúnar við komuna til Akraness, átta sig á nánasta umhverfi og tengjast stuðningsfjölskyldunum sem leiðbeina þeim og liðsinna á ýmsa lund," segir í tilkynningu félagsmálaráðuneytisins.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×