Innlent

Innbrotum og þjófnuðum fjölgaði umtalsvert milli ára

Hegningarlagabrotum fjölgaði um nærri fimmtung í nýliðnum ágúst í samanburði við sama mánuð í fyrra samkvæmt bráðabirgðatölum Ríkislögreglustjóra. Alls reyndust brotin hátt í 1400 en voru um 1150 í sama mánuði í fyrra.

Þá reyndust umferðarlagabrot í mánuðinum í ár nærri 6.900 og jukust um sjö prósent á milli ára. Ekki hafa fleiri umferðarlagabrot verið skráð í ágústmánuði síðastliðin fimm ár. Notkun stafrænna hraðamyndavélar skýrir að stórum hluta fjölgunina.

Afbrotatölur Ríkislögreglustjóra sýna enn fremur að fíkniefnabrot reyndust alls 137 í ágústmánuði sem er 14 prósenta fækkun milli ára. Þá reyndust brot gegn valdstjórninni rúmlega 180 það sem af er ári, eða á bilinu 10-30 í hverjum mánuði.

Enn fremur varð mikil fjölgun á þjófnaðarbrotum og innbrotum í ágúst í ár í samanburði við sama mánuð í fyrra. Skráð innbrot reyndust rúmlega 250 en voru 190 í fyrra sem er um þriðjungsfjölgun. Þá reyndust þjófnaðarbrot 57 prósentum fleiri, fóru úr um 290 í 450.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×