Innlent

Mestu flóð og skriður í áratugi

Norðanverðir Vestfirðir með sex þéttbýliskjörnum, eru vegasambandslausir eftir að mestu flóð og skriður í áratugi, rufu eða flæddu yfir þjóðvegina í óveðri í nótt. Á annað hundrað björgunarsveitarmenn voru kallaðir til aðstoðar víða um land og um tíma var samhæfingastöð Almnannavarna í Skógarhlíð mönnuð til að stjórna aðgerðum.

Á norðanverðum Vestfjörðum rauf vatnsflaumur þjóðveginn innst í Ísafjarðardjúpi, sem var verið að opna á ný, og aurskirður lokuðu Þorskafjarðarheiði. Sunnantil á fjörðunum er Barðastrandarvegur ófær nema léttum smábílum vegna vatnsskemmda.

Stór aurskriða lokar Örlygshafnarvegi og ófært er frá Bíldudal yfir í Trostansfjörð og stór flutningabíll sem valt í Arnarfirði lokar svo leið þar um. Dynjandisheiðin er ófær vegna aurskriða. Ljóst er að tjónið á þessum slóðum hleypur á mörgum milljónum króna og mun vera það mesta í einu óveðri í áratugi.









Rúður brotnuðu sums staðar í höfuðborginni í veðurhamnum.MYND/Stöð 2

Björgunarsveitarmenn sinntu fjölmörgum útköllum vegna foks á höfuðborgarsvæðinu í nótt, slökkviliðið þurfti að dæla vatni úr tugum húsa, rúður brotnuðu sums staðar og björgunarmenn þurftu að hemja fjúkandi flugvél á Reykjavíkurflugvell, svo eitthvað sé nefnt. Svipaða sögu er að segja frá Suðurnesjum þar sem meðal annars bíll fauk út í skurð og gámur inn á Hafnargötuna í Keflavík. Sömuleiðis var annríki hjá björgunarmönnum á Akranesi, í Borgarnesi, á Rifi og í Ólafsvík flæddi vatn og aur um götur, alveg upp á gangstéttir.

Laust upp úr klukkan tvö skall á mikið hvassviðri á Akureyri og urðu þar töluverðar skemmdir á trjágróðri. Víða brotnuðu stórar greinar af trjám og sumstaðar klofnuðu þau, og blasir hreinsunarstarf við bæjarstarfsmönnum.

Sárafá skip eru á sjó, og voru þau ýmist í vari eða héldu sjó í nótt, meðal annars nokkur flutningaskip suður af landinu. Þrátt fyrir að vindhraði hafi sums staðar farið upp undir 40 metra á sekúndu í hviðum og vatnselgur hafi víða verið mikill er ekki vitað um slys á fólki enda sárafáir á ferðinni.

Tafir hafa orðið i innanlandsflugi í morgun vegna ókyrrðar í lofti en búist er við að flugskilyrði batni eftir því sem líður á daginn.

Töluvert rignir enn á Suðaustur- og Austurlandi með talsverðu hvassviðri og er enn skriðuhætta í Hvalnesskriðum á Austfjörðum, sem Vegagerð og lögregla vara ökumenn við.
















Fleiri fréttir

Sjá meira


×