Innlent

Vinur forsætisráðherra styrkir HÍ

MYND/Stöð 2

Nýr styrktarsjóður verður settur á laggirnar við Háskóla Íslands á morgun sem stuðla á að námsmannaskiptum milli Japans og Íslands.

Það er Japaninn Tohizo Wanatabe sem stofnar sjóðinn og undirritar stofnskrá ásamt Kristínu Ingólfsdóttur, rektor Háskóla Íslands. Stofnframlag Watanabes til sjóðsins er þrjár milljónir Bandaríkjadala, jafnvirði nærri 280 milljóna króna. Sjóðurinn mun veita styrki til skiptináms í Japan og á Íslandi, bæði nemendum í grunnnámi og framhaldsnámi, auk þess að stuðla að kennaraskiptum.

Toshizo Watanabe er eigandi Nikken-fyrirtækisins í Bandaríkjunum en á námsárum sínum kynntist hann Íslandi þar sem hann sat á skólabekk með Geir H. Haarde forsætisráðherra og tókst með þeim ágæt vinátta sem haldist hefur fram á þennan dag eftir því sem segir í tilkynningu Háskólans. „Styrktarsjóði Watanabe við Háskóla Íslands er ætlað að veita íslenskum og japönskum stúdentum sama tækifæri til náms og Watanabe gafst og stuðla þannig jafnframt að aukinni velvild á milli Japans og Íslands," segir einnig í tilkynningunni.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×