Innlent

Fengu afhenta leiðsöguhunda

Fjórir leiðsöguhundar fyrir blint og sjónskert fólk voru í dag afhentir notendum sínum við hátíðlega athöfn í húsakynnum Blindrafélagsins. Hundarnir hafa verið þjálfaðir í hundaskóla norsku blindrasamtakanna og hefur þjálfun þeirra tekið um það bil eitt ár.

Í tilkynningu Blindrafélagsins segir að Siv Friðleifsdóttir, þáverandi heilbrigðisráðherra, hafi í maí í fyrra samið við félagið um kaup á fimm leiðsöguhundum og hófst undirbúningur vegna komu þeirra strax. Sex manna hópur blindra og sjónskertra fór til Noregs og tók þátt í undirbúningsnámskeiði þar sem fjórir þeirra voru valdir hæfir og tilbúnir til að taka við leiðsöguhundi, en hver hundur er valinn sérstaklega fyrir væntanlegan notanda.

Æfingar hafa staðið með hléum frá því að hundarinir komu hingað til lands í sumar og eftir er tveggja vikna lokaþjálfun á heimaslóðum hvers notanda. Segir í tilkynningu Blindrafélagsins að ef vel takist til megi ætla að hundurinn verði félagi og samstarfsaðili notanda síns næstu tíu árin.

Blindrafélagið vill hvetja fólk til að sýna leiðsöguhundunum og notendum þeirra skilning og tillitssemi á ferðum þeirra og minnir á að leiðsöguhundar eru ekki gæludýr heldur nauðsynlegt hjálpartæki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×