Erlent

Æstur múgur ræðst að sígaunum

Ítölsk lögregla hefur þurft að standa vörð um byggðir sígauna í nágrenni Napólí tvö kvöld í röð. Ástæðan er sú að æstur múgur hefur ítrekað gert aðsúg að sígaunum í borginni. Ráðist hefur verið á þá, bensínsprengjum hefur verið kastað að byggðum þeirra og heilu fjölskyldurnar hafa verið hraktar á flótta.

Það sem veldur þessum titringi er meint tilraun 16 ára sígaunastúlku til þess að ræna ungabarni fyrr í vikunni.

Málefni sígauna eru afar heit á Ítalíu um þessar mundir en sígaunum er mætt með mikilli tortryggni í landinu. Hið meinta mannrán leiddi til fjöldamótmæla í Napóli sem þróuðust fljótt út í ofbeldi.

Innanríkisráðherra Rúmeníu er væntalegur til Ítalíu eftir helgi til þess að ræða þessí mál en flestir þeirra Sígauna sem búsesttir eru á Ítalíu koma þaðan.

Talið er að ráðherrann muni bjóða fram aðstoð lögregluliðs sem hefur reynslu af því að berjast gegn glæpum í Sígaunasamfélögum.

 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×