Innlent

Óttast ekki áhrif níræðs níðings á ímynd eldri borgara

Margrét Margeirsdóttir, formaður Félags eldri borgara.
Margrét Margeirsdóttir, formaður Félags eldri borgara.

„Mér þykir mjög leitt að heyra þetta," segir Margrét Margeirsdóttir, formaður Félags eldri borgara, um dóm yfir manni á níræðisaldri. Maðurinn var dæmdur í fjögurra ára fangelsi fyrir kynferðisbrot gagnvart barnabarni sínu á ellefu ára tímabili.

Hún segir að eldri borgarar séu mjög misleitur hópur og að því leytinu til sé mál þessa manns alls ekki til þess fallið að draga úr virðingu fyrir eldri borgurum. Eldri borgarar séu bara þverskurður af þjóðfélaginu. Því sé rangt að tala um eldri borgara sem einn hóp. „Það eina sem eldri borgarar eiga sameiginlegt eru aldurinn," segir Margrét um málið.

Aldur hins dæmda var virtur honum til refsilækkunar. Um það mál segir Margrét að aðal atriðið sé að lögum og reglum sem sett hafi verið sé fylgt. „Mér heyrist að stundum sé tekið mið af heilsufari viðkomandi. Það eru sjálfsagt einhverjar reglur um ívilnanir á refsingu vegna heilsufars," segir Margrét í samtali við Vísi. Hún tekur þó skýrt fram að þetta sé lögfræðilegt atriði og hún sjálf sé ekki lögfræðingur.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×