Innlent

Niðurstaða í máli Paul Ramses í ágúst

Björn Bjarnason, dóms-og kirkjumálaráðherra.
Björn Bjarnason, dóms-og kirkjumálaráðherra.

Dóms-og kirkjumálaráðherra, Björn Bjarnason sagði í viðtali við Kastljósið í gærkvöldi að hann teldi að niðurstöðu í máli Paul Ramses væri að vænta í ágúst. Tvær vikur eru síðan Katrín Theódórsdóttir lögfræðingur Paul Ramses lagði inn kæru í dómsmálaráðuneytið. Hún krafðist þess að ákvörðun Útlendingastofnunar yrði dæmd ógild vegna þess hvernig staðið var að málinu.

Hann undirstrikaði það að dómsmálaráðuneytið hafi aðeins til meðferðar hvort Paul Ramses hafi verið sendur með réttmætum hætti úr landi eður ei, að ráðuneytið hefði aðeins með brottvísunina að gera.

Katrín Theódórsdóttir hefur lýst kærunni á þann veg við Vísi að fyrir utan að krefjast þess að fyrri ákvörðun verði dæmd ógild þá hafi einnig falist í kærunni krafa um að ný meðferð yrði hafin á grundvelli þess að ekki hafi verið rétt staðið að ákvörðunartökunni.

Hún hefur einnig sagt að á þessu stigi í málinu sé eingöngu verið að ákveða hvort við séum tilbúin að taka þessa umsókn fyrir hérna heima á grundvelli mannúðarsjónarmiða, að Ramses eigi fjölskyldu hér á landi og hafi tengsl við landið.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×