Lífið

Sjónvarpsstjarna fellur fyrir íslenskri hönnun

„Það var óvænt og skemmtilegt að hún skyldi sýna þessu áhuga" segir Þórhildur Ýr Jóhannesdóttir hönnuður og eigandi Hárhönnunar. Dansstjarnan Sabra Johnson kolféll fyrir fatnaði Þórhildar í heimsókn sinni til Íslands á dögunum, keypti nokkrar flíkur og hefur pantað fleiri.

Þórhildur hitti Söbru fyrir tilviljun á 101 hóteli í lok ágúst eftir tískusýningu sem hún stóð fyrir á Skólavörðustíg ásamt ER tískuhúsi. Þórhildur og föruneyti voru í fötum af sýningunni, og vöktu þau mikla athygli dansstjörnunnar. Svo fór að Sabra pantaði nokkrar flíkur sem hún átti að fá sendar heim til sín eftir að hún færi af landi brott. Tveimur dögum fyrir brottför ákvað Sabra að hún vildi hinsvegar endilega taka flíkurnar með sér. „Ég skellti mér bara í að sauma dressin," segir Þórhildur, sem sér tæpast eftir því að hafa þurft að leggja aðeins meira á sig.

„Henni fannst þetta skemmtileg hönnun og var ekkert smá ánægð, og var strax æst í að panta meira," segir Þórhildur. Það var þó ekki allt og sumt, því Sabra tók að sér að dreifa hróðri Þórhildar erlendis. Íslendingar voru líka fljótir að taka við sér í kjölfar sýningarinnar og segir Þórhildur að pöntunum hafi fjölgað töluvert eftir hana.

Hárhönnun, hárgreiðslustofa Þórhildar hefur verið með í sýningum af þessu tagi í þrjú ár, en þetta er í annað skiptið sem Þórhildur sýnir föt. Hún segist vel geta hugsað sér að gera meira af því að hanna. „Ég hef mikinn áhuga á þessu og verð með eitthvað af fötum til sölu á stofunni fyrir jólin," segir Þórhildur, en enn sem komið er eru föt hennar ekki til sölu í verslunum. Áhugasamir geta þó pantað þau á netfanginu tota273@hotmail.com.

Þessi bolur var meðal þess sem sjónvarpsstjarnan Sabra Johnson keypti af Þórhildi.MYND/Börkur Sigþórsson
Þessi kjóll átti einnig upp á pallborðið.MYND/Börkur Sigþórsson
MYND/Börkur Sigþórsson
MYND/Börkur Sigþórsson
MYND/Börkur Sigþórsson
MYND/Börkur Sigþórsson
MYND/Börkur Sigþórsson
MYND/Börkur Sigþórsson





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.