Innlent

Björn Bjarnason: Ekki verið að bola Jóhanni úr embætti

Dómsmálaráðherra segir að ekki sé verið að bola lögreglustjóra Suðurnesja úr embætti. Ráðuneytið hefur auglýst starfið til umsóknar án þess að lögreglustjórinn hafi sagt upp starfinu.

Morgunblaðið greinir frá því í dag að Jóhnn R. Benediktsson, lögreglustjóri Suðurnesja, hafi fengið bréf frá dómsmálaráðuneytinu þann 1. september síðastliðinn þar sem honum var greint frá því að starf hans yrði auglýst laust til umsóknar.

Jóhann hefur gengt embætti lögreglustjóra síðastliðinn fimm ár. Málið kemur nokkuð á óvart enda var Jóhann ekki búinn að segja starfi sínu lausu. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins ætlar Jóhann ekki sækja um starfið þegar það verður auglýst formlega.

Lögreglan á Suðurnesjum var rekin með umtalsverðum halla á síðasta ári. Í rekstraráætlun fyrir yfirstandandi ár var gert ráð fyrir 210 milljóna viðbótarfjárveitingu. Ráðuneytið hefur hingað til ekki viljað fallast á forsendur rekstraráætlunarinnar og kallað eftir niðurskurði og breytingum á embættinu.

Jóhann tilkynnti síðasta vetur að hann hyggðist segja starfi sínu lausu í tengslum við deilurnar en hefur þó ekki látið verða að því.

Ráðherra segir eðlilega að öllu staðið og að málið tengist ekki deilu ráðuneytis og lögreglustjóra.

„Við tökum ákvörðun um að auglýsa þetta embætti," segir Björn. „Jóhann getur sótt um það eins og aðrir. Embættið hefur tekið stakkaskiptum sem liðið hafa síðan hann var skipaður og mér finnst eðlilegt að auglýsa embættið þegar slíkar breytingar hafa orðið."

Aðspurður kvaðst Björn ekki vera að bola Jóhanni úr embætti. „Með því að auglýsa embættið er ekki verið að bola neinum úr embætti. Ég hef verið þeirrar skoðunar að það eigi að auglýsa embætti miklu oftar heldur en gert er. Eftir þennan fimm ára tíma en í þessu tilliti eru alveg klárar efnislegar forsendur fyrir að taka þessa ákvörðun. Þær geta ekki verið skýrari," segir Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra.

Ekki náðist í Jóhann R. Benediktsson í morgun.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×