Innlent

„Glistrup reytti af sér brandarana“

Jón Magnússon, þingmaður Frjálslyndaflokksins
Jón Magnússon, þingmaður Frjálslyndaflokksins

Jón Magnússon, þingmaður Frjálslyndaflokksins, hitti eitt sinn danska stjórnmálamanninn Mogens Glistrup sem féll frá í gær 82 ára að aldri. ,,Hann var óskaplega skemmtilegur og reytti af sér brandarana," sagði Jón í samtali við Vísi í dag.

„Ég borðaði með honum í danska þinginu einhvern tímann á áttunda áratugnum. Hann var nýlega komin inn í danska pólitik og kom svolítið bratt inn, hann var með öðruvísi skoðanir og vildi draga mikið úr ríkisafskiptum sem er auðvitað mjög mikilvægt að gera alls staðar í vestrænum samfélögum," segir Jón.

Jón taldi að Glistrup yrði minnst fyrir stofnun Framfaraflokksins, hnyttin tilsvör og áherslu hans á skattamál. „Hann hélt því meðal annars fram að þeir sem væru vel settir í þjóðfélaginu gætu nánast greitt þá skatta sem þeir vildu, svo margar væru glufurnar í skattkerfinu."

„Hann lenti í pólitískum hremmingum þegar afskipti voru höfð af óþægilegum málum og hann eltur uppi og ákærður," sagði Jón og taldi að Glistrup hefði ekki jafnað sig eftir það.

„Sem dæmi um hnyttin tilsvör hans sagði hann, inntur eftir hvað myndi gerast ef skattarnir lækkuðu eins og hann vildi ,,så få vid lykkelig Danmark" sem sagt að þá fengu þau hamingjusama Danmörku," sagði Jón að lokum og kímdi.

Vísir leitaði einnig viðbragða Magnús Þórs Hafsteinssonar sem taldi Glistrup hafa fært með sér nýja strauma og hafa skilið eftir sig spor í dönsku stjórnmálalífi sem enn eimir af.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×