Innlent

RÚV tapaði 20 milljónum á mánuði

Páll Magnússon, útvarpsstjóri.
Páll Magnússon, útvarpsstjóri.

Ríkisútvarpið hélt í dag sinn fyrsta aðalfund eftir að stofnuninni var breytt í opinbert hlutafélag. Þar kom meðal annars fram að tap af rekstri félagsins nam um 108 milljónum króna á þessu fyrsta rekstrartímabili sem markast af 1. apríl 2007 til 31. ágúst 2007.

Páll Magnússon útvarpsstjóri sagði á fundinum að tapið mætti rekja til þess að nýja félagið tók á sig biðlaunaskuldbindingar gömlu stofnunarinnar sem námu 142 milljónum króna og að öðrum kosti hefði hagnaður af rekstri á þessu tímabili verið 34 milljónir.

Auk þess hefði félagið þurft að taka á sig ýmsan kostnað sem eðlilega fellur til við breytingar af þessu tagi og því hefði hagnaður getað verið enn meiri.

Páll sagði því rétt að hafa í huga að þetta fyrsta reikningstímabil RÚV ohf. væri ekki hægt að bera saman við rekstur gamla Ríkisútvarpsins né væri það táknrænt fyrir framtíðarrekstur félagsins. Eigið fé RÚV ohf. er 770 milljónir króna og langtímaskuldir 3,7 milljarðar og skammtímaskuldir 1,6 milljónir.

„Eins og sjá má af þessum tölum er félagið mjög skuldsett og eiginfjárhlutfall lág," sagði Páll á fundinum. „Hvort tveggja veikir félagið en á móti kemur hins vegar að það hefur til þess að gera öruggan tekjustofn svo fremi sem stjórnvöld standi við að láta hann fylgja verðlagi."

Að lokinni ræðu útvarpsstjóra kvaddi Sigurður Þórðarson ríkisendurskoðandi sér hljóðs og gerði tvær athugasemdir. Hann benti á að hinu nýja félagi hefði verið afhent eigið fé upp á 15 prósent eins og ákveðið var á sínum tíma. Auk þess benti hann á að ef farið hefði verið að óskum Ríkisútvarpsmnna og biðlaunaskuldbindingar hefðu verið færðar á gömlu stofnunina hefði þurft að taka tekjur frá RÚV ohf. á móti.

 

 

 

 

 

 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×