Innlent

Margrét stefnir Frjálslynda flokknum

MYND/GVA

„Ég er nú bara að láta reyna á rétt minn sem launþega," segir Margrét Sverrisdóttir varaborgarfulltrúi sem stefnt hefur Frjálslynda flokknum vegna meintra vanefnda á launagreiðslum til hennar þegar hún var framkvæmdastjóri flokksins.

Margréti var sagt upp í lok nóvember árið 2006 og urðu töluverðar deilur innan flokksins vegna þess. Á miðstjórnarfundi í desember sama ár var gerð sátt um að hún færi í launað leyfi frá störfum sínum sem framkvæmdastjóri til loka landsþings flokksins sem var í lok janúar í fyrra. Á því landsþingi bauð Margrét sig fram til varaformanns flokksins en laut í lægra haldi fyrir Magnúsi Þór Hafsteinssyni. Skömmu síðar hætti Margrét í Frjálslynda flokknum.

Að sögn Margrétar fékk hún engan uppsagnarfrest borgaðan. „Ég óska eftir að fá borgaðan þriggja mánaða uppsagnarfrest sem mér finnst sanngjörn og eðlileg krafa eftir tíu ár í starfi," segir Margrét. Að hennar sögn telur flokkurinn að uppsagnarfrestur hennar hafi hafist í kjölfar þess að henni hafi verið sagt upp í nóvember 2006 en því sé hún ósammála. Hún hafi verið tilbúin að vinna fyrir flokkinn eftir landsþingið í janúar.

„Ég er fyrst og fremst að láta reyna á rétt minn sem launþega og ég mun taka því ef niðurstaðan verður Frjálslynda flokknum í hag," segir Margrét.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×