Lífið

Rúnar marseraði þá inn kirkjugólfið í lok tónleikanna og söng lagið „Gott er að gefa"

Helga Möller rifjar upp góðar stundir með Rúnari Júlíussyni.
Helga Möller rifjar upp góðar stundir með Rúnari Júlíussyni.

„Ég er búin að þekkja Rúnar í mörg ár og nokkrum sinnum komið fram með honum á tónleikum. Rúnar var skemmtilegur félagi, með „kúlið" í lagi fram á dánarstundina," svarar Helga Möller söngkona sem minnist Rúnars Júlíussonar sérstaklega fyrir skemmtilegan húmor og hversu samkvæmur hann var alltaf sjálfum sér.

„Mér er sérstaklega minnisstætt þegar við komum fram á jólatónleikum í Keflavíkurkirkju fyrir nokkrum árum síðan. Hann sló ærlega í gegn sérstaklega þegar hann marseraði inn kirkjugólfið í lok tónleikanna og söng lagið „Gott er að gefa"."

„Lagið er í sérsökum reggí-takti og hann var eins og kóngur í ríki sínu í þessum flutningi svo mikill kóngur að tónleikagestir stóðu upp fyrir honum af virðingu og hrifningu. Eins söng hann lag sem var bannað að flytja á sínum tíma sem ég man ekki alveg hvað heitir en það byrjar á þessum orðum „Hann fór um fjöll og fjöldi manns fylgdi honum..."," segir Helga.

„Þetta voru mjög skemmtilegir tónleikar sem fjöldinn allur af söngvurum tóku þátt í en mér fannst persónulega Rúnar standa upp úr."

Sjá og heyra Rúnar flytja lagið „Gott er að gefa" hér.



„Vinur minn sagði mér líka sögu af honum þar sem hann var að stilla upp hljóðfærum fyrir ball. Hann var með gleraugun á nefinu að tengja kerfið. Vinur minn spurði hann þá: „Ertu farinn að nota gleraugu Rúnar?" Rúnar svaraði þá: „Já, það er ég farinn að gera, en með heyrnartæki læt ég aldrei sjá mig". Þetta svar lýsir honum vel," segir Helga.

„Það er mikill missir í góðum dreng og frábærum félaga og sorglegt að hann þurfi að deyja til að tónlist hans fái þann sess í útvarpi sem hún á skilið," segir Helga áður en kvatt er.




Tengdar fréttir

Rúnar Júlíusson er látinn

Rúnar Júlíusson tónlistarmaður og útgefandi lést aðfararnótt föstudagsins 5. desember af völdum hjartaáfalls. Útgáfufyrirtæki hans Geimsteinn hélt árlega útgáfukynningu sína á veitingastaðnum Ránni fimmtudagskvöldið 4. desember þar sem listafólk útgáfunnar var saman komið. Rúnar var að fara á svið til að syngja og var að teygja sig eftir gítarnum þegar hann kenndi sér meins. Hann var fluttur á sjúkrahús þar sem hann andaðist. Guðmundur Rúnar Júlíusson fæddist í Keflavík 13. apríl 1945, sonur Júlíusar Eggertssonar múrarameistara og Guðrúnar Stefánsdóttur Bergmann.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.