Innlent

Orkuveitan fer yfir öryggismál

Orkuveita Reykjavíkur ætlar að fara yfir öryggismál í spennistöðvum sínum í kjölfar þess að ung stúlka brenndist eftir að hafa stungið reiðhjólastandara inn í spennistöð Hitaveitu Suðurnesja. Ekkert óðelilegt hefur komið í ljós í spenninum, en farið verður yfir málið hjá hitaveitunni svo svona lagað geti ekki endurtekið sig.

Ljóst er að mikil mildi var að ekki fór illa, en stúlkan hlaut brunasár, einkum í andliti og var flutt á Landspítalann. Hún var höfð þar til eftirlits síðustu nótt, en var útskrifuð í dag að sögn læknis.

Stúlkan tróð reiðhjólastandara inn um loftræstirist og í skinnu þar fyrir innan. Það var lán að gúmmíendi var á standaranum og því fékk hún ekki allan strauminn í sig.

Þorgrímur Stefán Árnason öryggisstjóri hjá Hitaveitu Suðurnesja sagði í samtali við Stöð 2 í dag að svona lagað ætti ekki að geta gerst. Hann sagði ekkert óðelilegt hafa komið í ljós við fyrstu skoðun á spennistöðinni, en að Neytendastofu hafi verið tilkynnt um málið og tæki það væntanlega til meðferðar eftir helgi.

Þorgrímur sagði að í framhaldi af slysinu yrði farið vandlega yfir málið til að koma í veg fyrir að slys á borð við þetta geti endurtekið sig. Hann sagði þessa spennistöð 25 ára gamla og svona lagað hefði aldrei gerst áður.

Hjá Orkuveitu Reykjavíkur fengust þau svör að farið yrði yfir spennistöðvar fyrirtækisins vegna slyssins til að reyna að útiloka slys á borð við þetta.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×