Innlent

Rökstuddur grunur um að hælisleitendur komi gögnum undan

Lögregla lagði hald á 1,6 milljónir króna í reiðufé í ýmsum gjaldmiðli auk vegabréfa, persónuskilríkja og ýmissa skjala við húsleit á sjö dvalarstöðum hælisleitenda í Reykjanesbæ í í morgun.

Í tilkynningu frá lögreglustjóranum á Suðurnesjum kemur fram að farið hafi verið inn í húsin klukkan hálfátta og var meginmarkmiðið að leita persónuskilríkja og annarra gagna til að bera kennsl á hælisleitendur. Lögregla hefur rökstuddan grun um að hælisleitendur komi slíkum gögnum undan og framvísi þeim ekki við yfirvöld meðan á hælismeðferð stendur.

Lögregla segir húsleitirnar hafa gengið vel og að þau gögn sem hún haldlagði geri Útlendingastofnun kleift að hraða úrlausn fjölda þeirra mála sem stofnunin hefur til meðferðar og taka ákvarðanir á réttum forsendum. Verulegur fjárhagslegur ávinningur sé af því að hraða meðferð hælismála hjá Útlendingastofnun.

Nærri 60 lögreglumenn frá þremur lögregluembættum tóku þátt í aðgerðinni í morgun auk Útlendingastofnunar.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×