Innlent

Embætti borgarritara og borgarlögmanns endurvakin

Embætti borgarritara og borgarlögmanns verða endurvakin samkvæmt nýsamþykktum breytingum á stjórnkerfi og skipuriti Reykjavíkurborgar. Það var gert á borgarstjórnarfundi í síðustu viku eftir tillögu Vilhálms Þ. Vilhjálmssonar borgarstjóra.

Fram kemur í tilkynningu frá borginni að breytingarnar feli meðal annar í sér að fjármálasvið, stjórnsýslu- og starfsmannasvið og þjónustu- og rekstrarsvið í Ráðhúsinu verða lögð niður og tekur nýtt embætti borgarritara við verkefnum sviðanna ásamt því að verða staðgengill borgarstjóra.

Embætti borgarlögmanns verður endurvakið en það var lagt niður á árunum 2004-2005 eins og embætti borgarritara. Hefur Kristbjörg Stephensen verið ráðin borgarlögmaður en hún hefur gegnt stöðu skrifstofustjóra lögfræðiskrifstofu og verið starfandi borgarritari um nokkurt skeið. Borgarlögmaður mun bera ábyrgð á lögfræðilegri ráðgjöf, álitsgerðum og umsögnum. Þá mun hann bera ábyrgð á málflutningi og annarri réttargæslu fyrir Reykjavíkurborg og annast samningsgerð fyrir hönd Reykjavíkurborgar.

Auk þessara breytinga mun starfsemi mannréttindaráðgjafa, þjónusta við mannréttindanefnd og stjórnkerfisnefnd heyra undir skrifstofu borgarstjórnar sem fer með umsýslu fyrir borgarstjórn, borgarráð og ýmsar nefndir sem starfa í umboði borgarráðs. Þá færast umsagnir um leyfi til veitingastaða til skrifstofu borgarstjórnar. Enn fremur heyrir innri endurskoðun Reykjavíkurborgar undir borgarráð.

Markmið stjórnkerfisbreytinganna er að auka skilvirkni og efla þjónustu Ráðhúss og samnýta betur starfskrafta innan stjórnsýslu borgarinnar eins og segir í tilkynningunni. Stjórnkerfisbreytingarnar taka gildi 1. júlí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×