Lífið

Lofræður um landið víða að finna á netinu

Nýnasistar um allan heim lofa Ísland, Íslendinga og íslenska menningu.
Nýnasistar um allan heim lofa Ísland, Íslendinga og íslenska menningu.

Nýnasistar elska Ísland og víða á netsvæðum þeirra má sjá vefsíður og spjallsíður þar sem landið er lofað af meðlimum nýnasista víða í heiminum. Á Stormfront.org mátti meðal annars finna 919 tengla um Ísland sem höfðu verið settir inn á þessu ári.

Og þar komu fram hugmyndir um að fjárfesta í bönkum á borð við Glitni og Kaupþing. Jafnframt var lýst yfir áhyggjum yfir stöðu innflytjendamála og ást Íslendinga á evrópskri og bandarískri menningu. „Þeir eiga æðstu menninguna en hafa ekki verið duglegir við að rækta hana,“ skrifar einn notandi. Þá er það talið landinu til tekna að hér sé lítið um litað fólk og að gyðingar séu fámennur minnihlutahópur.

Ef til vill eru það engar nýjar fréttir að nasistar og þeir sem aðhyllast „vald hvíta mannsins“ skuli lofsyngja Ísland. Adolf Hitler og nasistarnir í þriðja ríki Þýskalands voru ákaflega hrifnir af landi og þjóð og fornri sögu landsins. Töldu að hér þrifist hinn hreini aríakynstofn.

 

Ekki á íslandi Einar Skúlason segist ekki hafa orðið var við nýnasista á Íslandi.

Einar Skúlason, framkvæmdastjóri Alþjóðahússins, sagðist ekki hafa orðið var við nærveru erlendra nýnasista en kannaðist vissulega við skrifin á netinu um Ísland. „Þessi menn hafa fengið þessa flugu í hausinn að Íslendingar væru hrein þjóð,“ segir Einar og bætir því að þeir þyrftu ekki annað en fara á Þjóðminjasafnið og kynna sér fyrsta landnámsmanninn sem er töluvert frábrugðinn Íslendingum í dag. Einar telur helstu forvörnina gegn slíkum hópum vera fræðslu og aftur fræðslu. „Við þurfum að leggja meiri áherslu á að fræða fólk um fordóma og gera það færara í menningarfærni,“ segir Einar og bætir því við að þau í Alþjóðahúsinu hafi ekki upplifað skipulagða nýnasistastarfsemi á Íslandi.

„Þetta hefur ekki komið til skoðunar hjá okkur en þetta væri vissulega eitthvað sem við myndum skoða ef það færi að bera slíku hér á landi,“ segir Ásgeir Karlsson hjá greiningardeild Ríkislögreglustjóra. Hann sagði lögregluna hér á landi ekki hafa orðið vara við skipulagða starfsemi á borð við þá sem nýnasistar úti í heimi halda í heiðri.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.