Malbikaður hálendisvegur yfir Kjöl breytir nær engu um þörf á stækkun Hvalfjarðarganga, segir framkvæmdastjóri Spalar. Hann bendir á að umferð um Kjalveg verði aðeins um tíundi hluti umferðar um Hvalfjarðargöngin.
Einkafyrirtækið Norðurvegur kynnti í gær óskir sínar um að leggja uppbyggðan heilsárveg yfir Kjöl sem forsvarsmenn vonast til að hægt verði að opna árið 2010. Í síðasta mánuði gerðu Spölur og Vegagerðin samkomulag sem felur í sér að hafinn er undirbúning að gerð nýrra ganga undir Hvalfjörð.
Spyrja má hvort nýr Kjalvegur geti létt það mikið umferð af Vesturlandi að þörf á nýjum Hvalfjarðargöngum verði ekki jafn brýn. Gylfi Þórðarson, framkvæmdastjóri Spalar, telur svo ekki vera og segir að Kjalvegurinn breyti litlu fyrir Hvalfjarðargöng. Gylfi bendir á að forsvarsmenn Norðurvegar hafi kynnt að gert sé ráð fyrir 500 bíla umferð á sólarhring um Kjalveg árið 2010. Umferð um Hvalfjarðargöng sé hins vegar þegar orðin tífalt meiri, eða yfir fimmþúsund bílar á sólarhring, og vaxi hratt.
Þannig hafi nú í janúarmánuði farið um göngin átta til níu prósent fleiri bílar en í janúar í fyrra. Þá telur Gylfi ólíklegt að það markmið náist að Kjalvegur verði tilbúinn árið 2010, þó ekki væri nema vegna þess að áður þyrfti að fara fram viðamikið umhverfismat.