Innlent

Framlengja leyfi til að miðla persónuupplýsingum til Bandaríkjanna

Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair.
Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair. MYND/AB

Persónuvernd hefur tímabundið framlengt leyfi flugfélagsins Icelandair ehf til að miðla ýmsum persónuupplýsingum farþega sinna til heimavarnarráðuneytis Bandaríkjanna. Leyfið gildir til 31. júlí næstkomandi.

Fram kemur á heimasíðu Persónuverndar að leyfið sé veitt á grundvelli sjónarmiða um brýna almannahagsmuni þar sem að öðrum kosti Icelandair hafi á hættu að verða neitað um lendingarleyfi í Bandaríkjunum.

Um er að ræða upplýsingar úr farþegakerfum flugfélagsins. Sem dæmi nöfn, símanúmer, netföng og heimilisföng auk ýmissa upplýsinga tengdum ferðalaginu sjálfu og bókun þess.

Á heimasíðu persónuverndar kemur einnig fram að lögð sé áhersla á að um tímabundið leyfi sé að ræða og Icelandair sé skylt að uppfræða farþega um þetta áður en þeir kaupa miða.

Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, sagði í samtali við Vísi að Bandaríkjamenn hefðu gert þessar kröfur allt frá árásunum 11. september árið 2001. Leyfið sé framlengt tímabundið þangað til fundin verði framtíðarlausn í málinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×