Lífið

Google brúðkaup setur Karíbahafseyju á annan endann

Brúðkaup Larry Page, annars stofnanda Google er þessa dagana að setja litla Karíbahafseyju á annan endann. Skipuleggjendur eiga í stökustu vandræðum við að fljúga sexhundruð brúðkaupsgestum inn á einkaþotum og finna fyrir þá gististaði í viðeigandi gæðaflokki.

Page hefur margsinnis verið kjörinn eftirsóttasti piparsveinn Bandaríkjanna, og kann það að hafa eitthvað með gríðarleg auðæfin sem Google veldið hefur aflað honum. Hann giftist kærstu sinni til eins árs, Lucy Southworth, á einkaeyju Richards Branson í Karíbahafinu, Necker Island. Southworth er 27 ára doktorsnemi í lífeðlisfræðilegri upplýsingatækni í Stanford.

Ekki var hægt að koma öllum gestunum fyrir á Necker island, og því brá Page á það ráð að koma hluta gestanna fyrir á næstu eyju við hliðina, Virgin Gouda. Til þess að gestirnir gætu verið í friði tók hann sig til og bókaði upp alla gistingu á eyjunni.

Heimildamenn New York Post segja að Bono, söngari U2, verði frægasti gesturinn á svæðinu. Á boðslistanum eru fleiri af lista Forbest yfir auðugustu menn Bandaríkjanna, tæknimógúlar úr kísildalnum og vinir brúðgumans úr Stanford, en þar kynntust Page og meðeigandi hans í Google, Sergey Brin, í doktorsnámi í tölvufræði.

Þeim Page og Brin hefur vegnað ágætlega með fyrirtæki sitt. Síðan Google var sett á markað árið 2004 hafa hlutabréf í því hækkað um 510%. Þeir keyptu nýlega notaða Boeing 767 þotu til að snattast á í vinnunni og einkaerindum. Þá hefur Page fjárfest mikið í Tesla Motors, sem eru í óða önn að framleiða tryllitækið umhverfisvæna Tesla Roadster, rafmagnsbíl sem kemst 400 kílómetra á hleðslunni og fer úr núll í hundrað á fjórum sekúndum.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.