Lífið

Aðalleikurum í Flugdrekahlauparanum forðað frá Afganistan vegna öryggisástæðna

Aðalleikarinn, Ahmad, ásamt föður sínum. Honum hefur verið hrósað í hástert fyrir frammistöðu sína í myndinni.
Aðalleikarinn, Ahmad, ásamt föður sínum. Honum hefur verið hrósað í hástert fyrir frammistöðu sína í myndinni.
Fjórir afganskir drengir sem léku í kvikmyndaútgáfu Flugrdrekahlauparans hafa verið fluttir frá Afganistan á öruggan stað í Sameinuðu arabísku furstadæmunum til að forða þeim frá viðbrögðum sem kunna að verða við myndinni þegar hún verður frumsýnd síðar í mánuðinum.

Myndin er byggð á gríðarvinsælli samnefndri bók eftir afgansk-ameríska rithöfundinn Khaled Hosseini. Hún er ein af stærri myndum haustsins og talin eiga góðan möguleika á Óskarsverðlaunum. Bókin hefst á endurminningu sögupersónunnar, Amir, drengs úr vel stæðri Pashtun fjölskyldu. Hann rifjar upp hvernig hann verður vitni að því einn kaldan vetrarmorgun þegar besta vini hans og þjóni, sem tilheyrir hinum lágt setta Hazara ættbálki, er nauðgað af Pashtun manni.

Að sögn framleiðenda var atriðið gert á eins nærgætinn hátt og hægt var. Engin nekt var sýnd, og var verknaðurinn í stað þess gefinn í skyn með því að sýna gerandann leysa belti sitt. Fjölskyldur drengjanna óttast enga síður slæm viðbrögð landsmanna sinna við atriðinu. Frumsýningu myndarinnar var því frestað um sex vikur meðan fundinn var staður fyrir drengina og fjölskyldur þeirra.

Drengjunum og foreldrum þeirra hefur verið komið fyrir í ónefndum bæ þar sem þeir munu stunda skóla með öðrum afgönskum börnum. Paramount kvikmyndaverið, sem framleiðir myndina hefur lofað að sjá um þá á meðan myndin er í sýningu og, ef með þarf, þangað til þeir ljúka skólagöngu.

Paramount kvikmyndafyrirtækið fékk ráðgjafafyrirtæki í Washington til að skipuleggja flutninginn á drengjunum. Rich Klein, Mið-Austurlandasérfræðingur hjá fyrirtækinu sagði það mikinn létti að drengirnir væru nú öruggir. ,,Við unnum með átta manns, á þremur mismunandi tungumálum á fjórum tímabeltum. Við höfum loksins fundið stað þar sem þeir þurfa ekki að upplifa kvíða og röskun á lífi sínu."





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.