Innlent

Björn biðst undan því að vera bendlaður við REI

Björn Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráðherra.
Björn Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráðherra. MYND/Pjetur

Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, biðst undan því á bloggsíðu sinni að nafn hans sé „nefnt í tengslum við þessar uppákomur hjá OR og REI síðustu daga." Björn Ingi Hrafnsson benti á það í Kastljósi Ríkisútvarpsins að Björn hafi setið í stjórn Orkuveitunnar þegar ákvörðanir voru teknar um ENEX.

Björn segist hafa gagnrýnt alla málsmeðferð í sambandi við sameiningu REI og Geysi green energy og að hans mati er hún engum til sóma.

„Um langt árabil hefur Íslendinga dreymt um að geta nýtt jarðhitaþekkingu sína á alþjóðavettvangi," segir Björn á bloggi sínu. „Þróun orkuverðs undanfarin misseri gerir kleift að nýta orkugjafa, sem áður vöktu ekki sérstakan áhuga. Að verja eigi eignum Reykvíkinga til áhættufjárfestinga á Filippseyjum eða í Indónesíu á ekkert skylt við skoðanir mínar á útrás á þessu sviði - vilji einstaklingar eða fyrirtæki þeirra hætta fé sínu á þennan hátt hafa þeir fullt frelsi til þess."

Hann segist hins vegar ekki skilja hvers vegna menn leggi svo mikla áherslu á að sameina útrásarfyrirtækin í orkugeiranum. „Hvers vegna eru svona margar íslenskar fjármálastofnanir að sinna alþjóðlegum verkefnum?," spyr Björn. „Af hverju taka þær ekki höndum saman í einu íslensku fjármálafyrirtæki á alþjóðavettvangi? Á sínum tíma sameinuðust fiskframleiðendur um sölusamtök til að styrkja stöðu sína á alþjóðamörkuðum - sá tími er liðinn við fisksölu. Nú er hins vegar talað um þessa aðferð sem sérstakt bjargráð við útflutning á jarðhitaþekkingu."



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×