Innlent

Netþjónabú reist á suðvesturhorninu

Netþjónafyrirtæki, sem íslenskir fjárfestar eru aðillar að, hefur þegar tryggt sér landssvæði undir netþjónabú hér á landi. Það á nú í viðræðum við Landsvirkjun, Orkuveitu Reykjavíkur og Hitaveitu Suðurnesja um raforkukaup.

Netþjónabú eru orkufrek og kemur allt eins til greina að öll orkufyrirtækin selji búinu raforku. Þau hafa þegar lýst sig reiðubúin til að fjármagna saman að verulegu leyti nýjan sæstreng á milli Íslands og Danmerkur, Danice, sem sniðinn yrði að þörfum netþjónabús auk hefðbundins gagnaflutnings. Stefnt er að því að strengurinn verði tilbúinn til notkunar fyrir árslok á næsta ári.

Þegar er búið að tryggja skip til lagningarinnar og framleiðslu á strengnum sjálfum, en kostnaðurinn við lagningu hans nemur um fimm milljörðum króna.

Ekki fæst uppgefið hvar ráðgert er að reisa netþjónabúið nema hvað það verður á suðvesturhorni landsins. Suðurnesjamenn buðu nýverið fram landssvæði undir þess háttar rekstur í næsta nágrenni við Keflavíkurflugvöll en ekki liggur fyrir hvort því boði var tekið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×