Lífið

Sveppatripp Baggalúts

MYND/365

Hljómsveitin Baggalútur mun halda til Skotlands til að taka þátt í árlegri fimm daga sveppahátíð í bænum Aberfoyle þann 18. október næstkomandi. Þessa sömu daga fer Iceland Airwaves hátíðin fram í Reykjavík þar sem allar helstu hljómsveitir Íslands koma fram. Meðlimum Baggalúts þótti í því ljósi sérstaklega mikilvægt að einhver tæki að sér að flytja Íslenska tónlist út úr landi og tóku þeir því boðinu á sveppahátíðina fegins hendi.

Karl Sigurðsson, einn meðlimur hljómsveitarinnar, segir um að ræða landbúnaðarhátíð sem haldin sé á hverju ári. Í ár er íslenskt þema og segir Karl að tónlist Baggalúts hafi þótt vel við hæfi þar sem sveitin spilar mikið af landbúnaðar- og sveitatónlist. Hátíðin er alþjóðleg og mun hljómsveitin koma nokkrum sinnum fram fyrir sveppaunnendur hvaðan æva að úr heiminum.

Þá verður íslensk matargerð einnig kynnt á hátíðinni og með drengjunum í för verða íslenskir matreiðslumenn en Karl segir þá Baggalútsmenn einnig koma til með að bjóða upp á margvíslega rétti úr Flúðasveppum. Karl segir þó verst að fyrsta næturfrostið verði væntanlega ekki komið um miðjan mánuðinn. „Það hefði verið gaman að taka með sér sýni af Miklatúni til að kynna þá hlið sveppanna."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.