Lífið

Kvikmyndin Börn fékk Gyllta Svaninn

Íslenska kvikmyndin Börn eftir Ragnar Bragason fékk í kvöld Gyllta Svaninn á Alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Kaupmannahöfn. „Ég var nú bara klökkur," sagði Ragnar þegar Vísir náði tali af honum við lok verðlaunaafhendingunnar í Scala kvikmyndahúsinu í gærkvöldi.

„Við vorum saman komin þarna ég og aðalleikararnir þrír og bjuggumst alls ekki við aðalverðlaunum hátíðarinnar, en þetta var alveg ótrúlega skemmtilegt."

Verðlaun fyrir bestan leik kvenna hlaut Sofia Ledarp fyrir hlutverk í sænsku myndinni Den man elsker. Sama mynd vann einnig verðlaun fyrir besta handrit sem skrifað er af Kim Fupz Aakeson. Mathieu Amalric fékk verðlaun fyrir bestan leik karlkynsleikara í frönsku kvikmyndinni Heartbeat Detector.

Ragnar fór til Kaupmannahafnar á þriðjudag og ætlaði heim aftur í gær. Þegar það fréttist var honum sagt að myndin fengi einhver verðlaun og gott væri ef hann yrði á staðnum í kvöld. Hann frestaði því heimkomu til morgundagsins.

„Ég veit nú ekki hvernig ég kem verðlaunagripnum heim, þetta eru fjögur og hálft kíló og hann fer örugglega ekki í handfarangur," sagði Ragnar.

Í vefútgáfu danska blaðsins Berlingske Tidende segir að alþjóðleg dómnefnd fimm landa hafi valið á milli 11 mynda í aðalkeppninni. Allt í allt voru 147 myndir sýndar á hátíðinni í 11 kvikmyndahúsum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.