Innlent

Flugmaðurinn ákærður fyrir hrottalegt heimilisofbeldi

Úr myndasafni.
Úr myndasafni.

Ákæra á hendur karlmanni fyrir hrottalegt heimilisofbeldi var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Um er að ræða sama mann og komst í fréttirnar í síðasta mánuði þar sem hann var sakaður um að hafa smyglað konu frá Venesúela inn í landið í fyrra þegar hann var flugmaður á fraktflugvél.

Samkvæmt ákærunni á maðurinn að hafa ráðist á konuna inni á baðherbergi á heimili sínu í janúar síðastliðnum. Þar tók hann hana hálstaki og sló höfði hennar í vegg og sló hana svo margsinnis í líkamann á herbergisgangi íbúðarinnar þannig að hún féll við. Þá sparkaði hann í hana liggjandi.

Við þessar barsmíðar tognaði konan á hálsi, fékk eymsli á brjóstkassa, hrufl og marbletti um ofanverðan brjóstkassa, upp á herðar og út á hægri öxl, eymsli á hægra herðablaði, eymsli um brjósthrygg, sár á hægra hné og eymsli á aftanvert hægra læri eftir því sem segir í ákæru. Konan fer fram á hálfa milljón króna í miskabætur vegna árásarinnar.

Þær ásakanir konunnar um að maðurinn hafi smyglað henni inn í landið hafa verið til rannsóknar hjá lögreglunni á Suðurnesjum. Frumrannsókn er að ljúka og samkvæmt heimildum Vísis virðist rannsóknin hafa leitt það í ljós að flugmaðurinn hafi ekki gerst brotlegur við lög.

Hinn ákærði vildi ekki tjá sig um málið þegar Vísir hafði samband við hann í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×